sunnudagur, 29. ágúst 2010

bláberjaeftirréttur Ani Phyo



Ég lofaði að deila með ykkur bláberjaeftirrétti sem er í miklu uppáhaldi fjölskyldunnar. Hann er á bls. 93 í bókinni Ani's Raw Food Desserts eftir Ani Phyo, sem ég hef minnst á áður. Það er svo einfalt að útbúa þennan og hann vekur alltaf lukku; ljúffeng hollustubomba í skál, kjörin á þessum árstíma þegar margir hafa lagt leið sína í berjamó. Áferðin á mulningnum veltur á matvinnsluvélinni sem þið notið. Með minni verður hún eilítið klesst ef ég ber hana saman við myndina í bók Ani. En það er náttúrlega bragðið sem skiptir megin máli.

BLÁBERJAEFTIRRÉTTUR ANI PHYO

HRÁEFNI

MULNINGUR

  • 1 bolli döðlur, lagðar í bleyti í 30 mínútur
  • 1 bolli möndlur með hýði
  • 1 teskeið kanill
  • 1 teskeið múskat (ég nota ½ tsk og stundum sleppi ég múskatinu alveg og nota ½ tsk til viðbótar af kanil)
  • ½ teskeið fínt sjávarsalt

FYLLING

  • 4 bollar bláber (= 1 lítri)
  • ¼ bolli agave síróp

AÐFERÐ

  1. Leggið döðlurnar í bleyti í 30 mínútur
  2. Byrjið svo á mulningnum: Setjið möndlur, kanil, múskat og salt í matvinnsluvél, stillið á „pulse“ og látið vélina vinna uns þið fáið litla klumpa. Hellið vatninu af döðlunum, bætið þeim út í og vinnið vel
  3. Setjið helminginn af mulningnum í leirmót/bökudisk og setjið hinn helminginn til hliðar
  4. Til að gera berjafyllinguna: Setjið bláberin í stóra skál, hellið agave sírópinu yfir og notið mjúka sleif til að hræra þessu rólega saman og passið að kremja ekki berin
  5. Hellið berjafyllingunni yfir mulninginn í mótinu/bökudisknum og dreifið svo restinni af mulningnum yfir berjafyllinguna
  6. Ég geymi eftirréttinn í kæli uns ég ber hann fram með þeyttum rjóma, heimagerðum ís eða grískri jógúrt. Þið getið líka borið þennan fram í fallegum glösum ásamt ís. Setjið þá eftirréttinn (um hálfan bolla) í hvert glas, svo góða skeið af ís ofan á og toppið með eftirréttinum og jafnvel örlitlum þeyttum rjóma
  7. Ef þessi klárast ekki þá fáum við okkur restina í morgunmat daginn eftir og sleppum þá auðvitað rjómanum/ísnum. Rétturinn geymist annars í 2-3 daga í kæli

Pin It button on image hover