miðvikudagur, 30. mars 2011

belgískar vöfflur


Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja um belgískar vöfflur, þær útskýra sig nokkurn veginn sjálfar. Þetta er uppskrift sem ég hef prufað mig áfram með í nokkurn tíma og nú er allt heimilisfólk sátt. Ég nota stór egg í þessa og nota yfirleitt bara tvær eggjarauður á móti þremur eggjahvítum. Fyrir ykkur sem bakið gjarnan með agave sírópi þá verð ég að segja að hrásykur er skemmtilegri í þessa uppskrift því sírópið gerir vöfflurnar örlítið slepjulegar. Mér finnst best að borða þær með lífrænni hindberjasultu eða ferskum berjum og rjóma. Krakkarnir nota lífrænt súkkulaðihnetusmjör, ber og rjóma. Ég næ tíu vöfflum úr deiginu og er hver vaffla ansi matarmikil.

BELGÍSKAR VÖFFLUR

HRÁEFNI

  • 1½ bolli fínt spelti (200 g)
  • 3½-4 teskeiðar vínsteinslyftiduft
  • ½ teskeið sjávarsalt, fínt
  • 2 matskeiðar lífrænn hrásykur
  • 2-3 eggjarauður
  • 1½ bolli léttmjólk (375 ml)
  • 3 matskeiðar kókosolía í fljótandi formi
  • 3 eggjahvítur, þeyttar

AÐFERÐ

  1. Blandið þurrefnum saman ásamt sykri í stóra skál og setjið til hliðar
  2. Aðskiljið eggin
  3. Þeytið eggjahvíturnar þar til þær verða nokkurn veginn froðukenndar, tekur um 1 mínútu (óþarft að stífþeyta þær) og setjið til hliðar
  4. Bætið eggjarauðum og mjólk út í þurrefnablönduna og hrærið saman með pískara
  5. Bætið kókosolíunni út í og hrærið saman með pískaranum
  6. Notið sleikju til þess að blanda þeyttu eggjahvítunum saman við, mjög hægt og rólega. Alls ekki hræra þeim saman við (bara „fold them“). Deigið á að vera þannig að þið greinið eggjahvítuna
  7. Passið að belgíska vöfflujárnið sé orðið heitt og rétt penslið það með kókosolíu ef vöfflurnar eiga það til að festast í því. Notið stóra ausu til þess að hella deiginu í mitt formið. Það er mismunandi hvað vöfflurnar eru lengi að bakast, í mínu járni bakast vafflan á ca. 5-6 mínútum og er þá orðin gullinbrún. Mér finnst best að setja vöfflurnar beint úr járninu á kæligrind og leyfa þeim að kólna þar í smá stund

Pin It button on image hover