föstudagur, 31. desember 2010

möndlugrautur (risalamande)

© Lísa Hjalt | Lestur & Latte
Uppskriftina að möndlugrautnum (risalamande) er nú að finna á Lestur & Latte blogginu (smellið á tengilinn).

föstudagur, 19. nóvember 2010

pekankaka

Ég heyrði einu sinni tónlistarmanninn Sting segja um lagið Come Down in Time eftir Elton John að hann vildi að hann hefði samið það sjálfur. Mér líður eins með pekankökuna hennar Sigrúnar; þetta er uppskrift sem ég vildi að ég hefði sett saman sjálf. Ég hafði lofað sjálfri mér því að deila henni á síðunni þegar nýi CafeSigrun-vefurinn færi í loftið, sem gerðist einmitt í dag. Ég hef kennt mörgum að gera þessa og það bregst ekki, hún slær í gegn á þeim heimilum og fer beint í uppáhaldskökuflokkinn. Þetta er ein af þessum kökum sem þarf ekki að baka. Það eina sem þarf er matvinnsluvél með góðu blaði. Þegar sonur minn, þá 3ja ára, smakkaði hana fyrst þá hallaði hann aftur augunum og sagði svo: „Þetta er besta rjómakaka sem ég hef fengið.“ Auðvitað er enginn rjómi í kökunni (hún er samt æði með rjóma) en hann kallaði hana lengi vel brúnu rjómakökuna. Hér er uppskriftin og ég óska Sigrúnu til hamingju með nýju útgáfuna af vefnum sem er glæsilegur, hannaður af Jóhannesi eiginmanni hennar (líklega eini forritarinn í heiminum sem fær greitt í smákökum).

PEKANKAKA

BOTN

100 g pekanhnetur
50 g möndlur
90 g döðlur, steinlausar

FYLLING

100 g cashewhnetur
2 matskeiðar kókosolía, fljótandi
1 stór banani
4 matskeiðar agavesíróp (líka gott að nota hreint hlynsíróp á móti agave)
30 g kakó
1 teskeið vanilludropar (helst úr heilsubúð)
smá klípa sjávarsalt
25-50 ml sojamjólk
1 matskeið kakónibbur (cacao nibs) - má sleppa


BOTN

Leggið fyrst döðlurnar í bleyti í 20 mínútur.

Setjið möndlurnar í matvinnsluvél og malið þær gróft. Bætið pekanhnetunum út í og malið fínt án þess að mauka hneturnar.

Hellið vatninu af döðlunum og bætið þeim út í matvinnsluvélina. Maukið í vélinni þar til deigið er grófkornótt og helst vel saman ef þið klípið það saman með fingrunum.

Klæðið 21 cm lausbotna kökuform með matarfilmu (eða bökunarpappír: ég nota bökunarpappír ef ég er bara að gera hana fyrir heimilisfólk og ekki að fara að setja hana á sérstakan kökudisk). Þrýstið blöndunni ofan í botninn með fingrunum og upp á hliðarnar (svona 1,5-2 cm upp á hliðina, botninn þarf ekki að vera mjög þykkur). Geymið í kæliskáp á meðan þið útbúið fyllinguna.

FYLLING

Setjið cashewhneturnar í matvinnsluvélina og maukið alveg þar til hneturnar fara að mynda kekki, sem gæti tekið nokkrar mínútur, fer eftir því hversu öfluga vél þið notið.

Látið vélina vinna á meðan þið bætið kókosolíunni út í og maukið vel.

Afhýðið bananann og bætið honum út í, í 3-4 bitum, ásamt agavesírópi, kakó, vanilludropum og salti. Látið vélina vinna í um 30 sekúndur og hellið á meðan um 25 ml af sojamjólkinni út í blönduna.

Fyllingin verður mjög fljótandi og ætti að leka af sleif frekar hratt (en ekki í dropatali). Ef hún er mjög stíf, eins og búðingur, bætið þá um 25-35 ml af sojamjólk til viðbótar. Betra er þó að hafa blönduna stífari en mýkri því alltaf má bæta meira af sojamjólk ef þörf er á.

Næst er að setja fyllinguna í botninn. Ef bera á kökuna fram á kökudisk þá þarf að færa hana á diskinn fyrst og gæta þess að botninn brotni ekki. Hér þarf svolitla lagni: Best er að færa botninn með því að nota lausan sléttan botn úr kökuformi til að smeygja undir og renna botninum yfir á kökudiskinn.

Hellið fyllingunni út í botninn og jafnið út með sleikju. Geymið í kæliskáp í 2-3 klukkustundir.

Dreifið kakónibbum yfir kökuna, ef notaðar. Berið kökuna fram kalda.

fimmtudagur, 11. nóvember 2010

biscotti


Ég elska biscotti (ítalskar kexkökur) og baka þær reglulega enda veitt ég fátt betra en að dýfa biscotti ofan í kaffibollann minn, hvort sem ég er heima eða á ferðinni. Vinkonur mínar geta kvittað fyrir það að gjarnan leynist poki með biscotti í töskunni minni. Undanfarið hafa nokkrir vina minna sent mér póst og spurt hvaða uppskrift ég nota þannig að nú er rétti tíminn til að birta uppskriftina, sem er að finna á CafeSigrun vefnum (Sigrún fann hana á kaffisíðu einhvers hjólreiðakappa sem nú er  lokuð). Í þessari uppskrift er hrásykur og svo er jú holl fita í möndlunum þannig að það má borða þessar með góðri samvisku. Persónulega finnst mér best að nota möndlur með hýði og ég blanda saman grófu og fínu spelti þannig að kökurnar verði ríkari af trefjum.

BISCOTTI

HRÁEFNI

  • 110 g lífrænn hrásykur (ekki nota of grófan)
  • 1 (hamingju)egg
  • ½-1 teskeið vanillu- eða möndludropar úr heilsubúð
  • 240 g spelti (blandið grófu og fínu saman)
  • 2 teskeiðar vínsteinslyftiduft
  • 75 g möndlur með hýði, gróft saxaðar
  • kalt vatn

Það má bæta 2 msk af góðu kakó (lífrænt/fairtrade) til að gera súkkulaði biscotti og einnig má setja nokkra bita af lífrænu súkkulaði með hrásykri, t.d. frá Rapunzel eða Green & Black's.

AÐFERÐ

  1. Blandið saman hrásykri, eggi og vanillu- eða möndludropum (má líka nota lífrænan vanillusykur) í skál ásamt örlitlu vatni til þess að leysa upp sykurinn [ég nota 1 msk vatn]
  2. Blandið saman spelti og lyftidufti í sér skál
  3. Blandið eggjablöndunni saman við speltið og hrærið með sleif þangað til eggið hefur blandast vel speltinu. Hér þarf líka að bæta við smávegis af köldu vatni, matskeið í einu [ég nota 3 msk], til að blandan verði nægilega blaut. Hún má samt ekki vera klístruð heldur þarf að vera þannig að hægt sé að hnoða hleifinn án þess að hún klessist við allt
  4. Saxið möndlurnar gróft og hrærið þeim saman við
  5. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og fletjið deigið út þannig að þið fáið um það bil 12 cm breiðan og 22 cm langan hleif sem er um 1-1,5 cm á hæð [ef blandan er klístruð, rétt bleytið þá hendurnar undir krananum og haldið áfram að móta hleifinn]
  6. Bakið hleifinn við 180°C í 40 mínútur (160° ef á blæstri) eða þangað til hann er orðinn nógu harður til að hægt sé að skera hann
  7. Takið úr ofninum, kælið í 5 mínútur og skerið hleifinn á ská í þunnar sneiðar (ca. 1 cm) með grófum brauðhníf. Skerið varlega til að möndlurnar brotni ekki úr deiginu
  8. Dreifið sneiðunum á bökunarpappírinn og setjið aftur í ofninn og bakið í 15 mínútur. Snúið þá sneiðunum við og bakið í 5-7 mínútur. Slökkvið svo á ofninum og leyfið biscotti kökunum að kólna inni í ofninum
  9. Biscotti kökurnar geymast vel í lokuðu íláti

miðvikudagur, 27. október 2010

grænmetis- og tómatsúpa

Ég geri reglulega núðlusúpu og nota í hana stilkana (græna hlutann) á ýmist vorlauksbúnti eða einum til tveimur blaðlaukum. Hvíta hlutann geymi ég í ísskápnum og það kemur fyrir að ég steingleymi að nota hann og þarf svo að henda honum. Mér líkar ekki að henda mat og fannst því kjörið að leyfa hugmyndafluginu að ráða og setja saman uppskrift að súpu með þessu tiltekna hráefni. Úr varð tómatsúpa sem rennur vel ofan í mitt fólk með nýbökuðum speltbollum, ólífubrauði eða sveitabrauði. Hún er ekki síðri upphituð daginn eftir og því upplagt að taka hana með í vinnuna ef þið hafið aðstöðu til þess. Tómatsúpur eru ekkert annað en klassík og þessi er kjörin í kuldanum. Súpum á eftir að fjölga á vefnum því ég hef verið að leika mér með nokkrar nú í haust og vetur.

GRÆNMETIS- OG TÓMATSÚPA

HRÁEFNI

  • 1 laukur
  • 2 blaðlaukar eða vorlauksbúnt (ekki nota græna hlutann)
  • 2 stór hvítlauksrif
  • 1½ matskeið extra virgin ólífuolía
  • 1 stór gulrót
  • 1 rauð paprika
  • 1½ lítri vatn
  • 2½ gerlaus grænmetisteningur
  • 2 dósir tómatar (helst flysjaðir tómatar)
  • ½ teskeið paprikuduft
  • ½ teskeið mulinn kóríander
  • 2 teskeiðar ítölsk kryddblanda
  • 1 teskeið sjávarsalt

AÐFERÐ

  1. Byrjið á því að skera lauk og grænmeti og léttsteikið laukinn og blaðlaukinn í olíunni í sæmilega stórum potti
  2. Bætið hvítlauk og restinni af grænmetinu út í þegar laukurinn er aðeins byrjaður að mýkjast og haldið áfram að léttsteikja
  3. Bætið því næst vatninu, grænmetisteningunum og tómötunum út í, blandið vel saman og stillið á hæsta hita
  4. Kryddið og bíðið eftir að suðan komi upp
  5. Látið súpuna malla í 30 mínútur á meðalhita
  6. Maukið súpuna rétt aðeins með töfrasprota, þó ekki svo mikið að hún verði eins og ungbarnamatur (þið getið líka sett hana í smá skömmtum í ýmist blandara eða matvinnsluvél en þá þarf að kæla hana áður)

mánudagur, 18. október 2010

bananabrauð með valhnetum


Uppskriftina að þessu bananabrauði (ég elska valhnetur!) fékk ég á Starbucks í Kanada og gerði breytingar á henni; hún er núna hollari og er bara betri fyrir vikið. Mér þótti athyglisvert að heyra að fitumagnið í henni hefði verið minnkað á Starbucks því þrátt fyrir það inniheldur uppskriftin þeirra ½ bolla af olíu. Mér finnst óþarfi að nota svo mikið magn og brauðið verður ekkert þurrt með minni olíu því valhneturnar innihalda næga fitu (það má líka nota pekanhnetur). Ég þarf svo varla að taka það fram að ég tók út hvítan sykur og minnkaði sykurmagnið verulega.

BANANABRAUÐ MEÐ VALHNETUM

HRÁEFNI

  • 260 g (2 bollar) gróft spelti (má líka blanda grófu og fínu)
  • 1 matskeið vínsteinslyftiduft
  • ¼ teskeið fínt sjávarsalt
  • 100 g (½ bolli) lífrænn hrásykur
  • 2 matskeiðar hreint hlynsíróp eða agave eða lífrænn hrásykur
  • 1 (hamingju)egg
  • 1 matskeið kókosolía, fljótandi (látið krukkuna standa í skál með heitu vatni fyrir notkun)
  • ½ teskeið vanilludropar eða lífrænn vanillusykur
  • 2-3 matskeiðar hrein jógúrt eða súrmjólk
  • 3 stórir bananar eða 4 litlir (í uppskriftinni segir vel þroskaðir en mér finnst í fínu lagi að nota venjulega)
  • ½ bolli saxaðar valhnetur + 1 lúka til þess að setja ofan á brauðið

AÐFERÐ

  1. Byrjið á því að blanda spelti, vínsteinslyftidufti og salti saman í skál. Setjið til hliðar
  2. Setjið egg, hrásykur og kókosolíu í aðra skál og hrærið saman með pískara eða gaffli
  3. Bætið þurrefnablöndunni út í blautu blönduna og blandið saman með sleif (ekki hafa áhyggjur af því að blandan virki þurr því bananarnir eiga eftir að blandast saman við)
  4. Stappið bananana og bætið þeim saman við ásamt vanilludropum og jógúrt. Hrærið létt með sleifinni þar til hráefnin hafa blandast saman
  5. Bætið ½ bolla af söxuðum valhnetum saman við og sem fyrr, hrærið bara létt með sleifinni
  6. Klæðið brauðform með bökunarpappír og hellið deiginu út í
  7. Dreifið ca. 1 lúku af söxuðum valhnetum yfir brauðið (upprunalega uppskriftin segir 1/3 bolli en mér finnst það óþarflega mikið)
  8. Bakið við 175°C í 50-60 mínútur. Það er ágætt að stinga gaffli eða prjón í miðjuna eftir 45 mínútur til að sjá hvort brauðið sé nokkuð of blautt (stillið á 160°C ef þið bakið á blæstri)
  9. Látið brauðið standa í forminu á kæligrind á meðan það er að kólna

sunnudagur, 10. október 2010

súkkulaðikrem (á skúffuköku)

Þessi uppskrift að kremi er ekki ný á síðunni heldur ákvað ég að hafa hana í sér færslu upp á þægindin. Þetta er einfalt súkkulaðikrem sem ég setti saman fyrir skúffuköku og ég hef fengið góð viðbrögð við því og kökunni (ég var einmitt að taka hana út úr ofninum, nammi namm). Þetta krem varð til úr blöndu sem ég notaði til að gera heitt súkkulaði og ég gerði bara smávægilegar breytingar til þess að gera úr henni krem. Ég á eftir að birta uppskriftina að þessu heimagerða heita súkkulaði, geri það síðar þegar vetur konungur er genginn í garð. Eins og kemur fram í aðferðinni þá er gott að gera kremið á meðan kakan er í ofninum og leyfa því að standa.

SÚKKULAÐIKREM

HRÁEFNI

  • 3 matskeiðar hrásykur (ekki nota of grófan)
  • 4 matskeiðar kakó
  • 2 matskeiðar kaffi
  • 1-2 matskeiðar vatn
  • ½ teskeið vanilludropar/vanillusykur úr heilsubúð
  • 2½ teskeiðar agave eða hreint hlynsíróp
  • ½ teskeið kókosolía, fljótandi
  • örlítið fínt sjávarsalt

AÐFERÐ

  1. Blandið kakó og sykri saman í litla skál með skeið
  2. Bætið vanilludropum, kaffi og vatni út í og hrærið rólega saman með skeiðinni
  3. Bætið agave og kókosolíu saman við, saltið og smakkið til (áferð kremsins á að vera silkimjúk en ekki of fljótandi)
  4. Látið kremið standa við stofuhita á meðan kakan er að kólna og dreifið því svo yfir kökuna með sleikju

fimmtudagur, 23. september 2010

banana- og möndlumöffins

Þessi möffins eru sérstaklega hugsuð fyrir börnin mín til þess að taka með sér í skólann því þau mega ekki koma með neitt sem inniheldur súkkulaði. Það er bara holl fita í þessum, bragðið er ekki of sætt og ég lét bara örlítið kakó í deigið til þess að fá keim. Ef ég vakna snemma þá skelli ég stundum í þessi og gef fólkinu mínu með morgunmatnum því aðferðin er einföld. Ég á eilítið nammilegri útgáfu af þessari uppskrift sem ég ætla að birta síðar með mynd þegar ég eignast nýja myndavél (myndavélin mín eyðilagðist um daginn og ég þurfti að taka þessa mynd í tölvunni). Ég minni svo á að þessi verður að baka í silíkonmöffinsformum þar sem þau innihalda litla olíu (það þarf ekki meira af olíu því möndlurnar innihalda jú fitu líka).

BANANA- OG MÖNDLUMÖFFINS

HRÁEFNI

  • 1½ bolli fínt spelti
  • 2 teskeiðar vínsteinslyftiduft
  • 2 teskeiðar kakó, lífrænt/fairtrade
  • ½ teskeið fínt sjávarsalt
  • 50 g hakkaðar möndlur eða möndluflögur
  • 1 (hamingju)egg
  • 1 eggjahvíta
  • ½ bolli hrásykur
  • 1 teskeið vanilludropar
  • 2 stórir bananar, stappaðir
  • 2 matskeiðar sojamjólk (+1 msk ef ykkur finnst þurfa)
  • ½ matskeið kókosolía (ef í föstu formi látið krukkuna standa í skál með heitu vatni fyrir notkun)

AÐFERÐ

  1. Blandið þurrefnum saman í stórri skál og blandið svo hökkuðum möndlum saman við
  2. Pískið eggin létt í minni skál, hrærið sykrinum saman við, stappið svo bananana og bætið þeim út í ásamt vanilludropum, mjólk og kókosolíu
  3. Hellið eggjablöndunni út í þurrefnablönduna og bara rétt veltið deiginu með sleif, alls ekki hræra mikið því deigið á að vera létt í sér. Hér bætið þið einni auka matskeið af mjólk ef ykkur finnst þurfa (hjá mér veltur þetta svolítið á rakastiginu í eldhúsinu hverju sinni, yfirleitt er aukaskeiðin óþarfi)
  4. Smyrjið silíkonmöffinsformin með kókosolíu áður en þið setjið deigið í formin (gerir 12 möffinsa)
  5. Bakið í blástursofni við 180°C í 20-23 mínútur (athugið að ofnar eru mismunandi, verið óhrædd að breyta þessu ef ykkur finnst ykkar ofn kalla á meiri hita eða lengri tíma)
  6. Látið möffinsin standa í formununum á kæligrind í 5 mínútur og í aðrar 5 mínútur þegar þið hafið tekið þau úr formunum

sunnudagur, 29. ágúst 2010

bláberjaeftirréttur Ani Phyo



Ég lofaði að deila með ykkur bláberjaeftirrétti sem er í miklu uppáhaldi fjölskyldunnar. Hann er á bls. 93 í bókinni Ani's Raw Food Desserts eftir Ani Phyo, sem ég hef minnst á áður. Það er svo einfalt að útbúa þennan og hann vekur alltaf lukku; ljúffeng hollustubomba í skál, kjörin á þessum árstíma þegar margir hafa lagt leið sína í berjamó. Áferðin á mulningnum veltur á matvinnsluvélinni sem þið notið. Með minni verður hún eilítið klesst ef ég ber hana saman við myndina í bók Ani. En það er náttúrlega bragðið sem skiptir megin máli.

BLÁBERJAEFTIRRÉTTUR ANI PHYO

HRÁEFNI

MULNINGUR

  • 1 bolli döðlur, lagðar í bleyti í 30 mínútur
  • 1 bolli möndlur með hýði
  • 1 teskeið kanill
  • 1 teskeið múskat (ég nota ½ tsk og stundum sleppi ég múskatinu alveg og nota ½ tsk til viðbótar af kanil)
  • ½ teskeið fínt sjávarsalt

FYLLING

  • 4 bollar bláber (= 1 lítri)
  • ¼ bolli agave síróp

AÐFERÐ

  1. Leggið döðlurnar í bleyti í 30 mínútur
  2. Byrjið svo á mulningnum: Setjið möndlur, kanil, múskat og salt í matvinnsluvél, stillið á „pulse“ og látið vélina vinna uns þið fáið litla klumpa. Hellið vatninu af döðlunum, bætið þeim út í og vinnið vel
  3. Setjið helminginn af mulningnum í leirmót/bökudisk og setjið hinn helminginn til hliðar
  4. Til að gera berjafyllinguna: Setjið bláberin í stóra skál, hellið agave sírópinu yfir og notið mjúka sleif til að hræra þessu rólega saman og passið að kremja ekki berin
  5. Hellið berjafyllingunni yfir mulninginn í mótinu/bökudisknum og dreifið svo restinni af mulningnum yfir berjafyllinguna
  6. Ég geymi eftirréttinn í kæli uns ég ber hann fram með þeyttum rjóma, heimagerðum ís eða grískri jógúrt. Þið getið líka borið þennan fram í fallegum glösum ásamt ís. Setjið þá eftirréttinn (um hálfan bolla) í hvert glas, svo góða skeið af ís ofan á og toppið með eftirréttinum og jafnvel örlitlum þeyttum rjóma
  7. Ef þessi klárast ekki þá fáum við okkur restina í morgunmat daginn eftir og sleppum þá auðvitað rjómanum/ísnum. Rétturinn geymist annars í 2-3 daga í kæli

fimmtudagur, 19. ágúst 2010

skúffukaka



Ég hef aldrei verið mikið fyrir skúffukökur en það breyttist fyrr á þessu ári. Ég gat ekki annað en lagst í tilraunir í febrúar þegar María mín bað mig svo fallega um að þróa köku sem væri „bara svona venjuleg súkkulaðikaka, ekki með neinum döðlum, möndlum eða hnetum.“ Þessi tilraun heppnaðist afskaplega vel og ég notaði súkkulaðikrem sem ég setti saman í fyrra til að búa til heitt súkkulaði; gerði bara örlitla breytingu á því fyrir kökuna. Börnin eru einstaklega hrifin af þessari köku – við hjónin líka og allir sem hafa fengið að smakka – og kosturinn við hana er sá að það er svo einfalt að skella í hana og tekur ekki langan tíma. Ágætt líka stundum að gefa matvinnsluvélinni frí og hvíla sig á hnetunum. Þessi kaka er að sjálfsögðu laus við smjör, púðursykur og hvítan sykur og hvort sem þið trúið því eða ekki þá er ekki nema ein matskeið af kókosolíu í henni. Kakan er ekki stór en mér finnst skúffukökur vera það seðjandi að ég get aldrei borðað mikið í einu. [Uppfærsla 22. feb. 2013: Ég hef gert örlitlar breytingar á uppskriftinni og ég breytti eilítið baksturstímanum og hitanum því ég er hætt að baka kökuna á blæstri. Ég hef einnig sett saman annað krem sem ég nota á skúffukökuna.]

SKÚFFUKAKA, BOTNINN

HRÁEFNI

  • 1 bolli spelti (130 g)
  • 3-3½ matskeið gæða kakó (fair-trade)
  • 2 teskeiðar vínsteinslyftiduft
  • ½ teskeið sjávarsalt, fínt
  • ½ bolli lífrænn hrásykur (= 100 g)
  • 1 stórt (hamingju)egg
  • 1½ matskeið hreint hlynsíróp eða agave
  • má sleppa: 1 matskeið gott kaffi (þarf ekki að vera nýlagað)
  • 1 teskeið vanilludropar úr heilsubúð (eða lífrænn vanillusykur)
  • 1 matskeið kókosolía (látið krukkuna standa í skál með heitu vatni fyrir notkun)
  • 5 matskeiðar (75 ml) hrein eða grísk jógúrt
  • 4-5 matskeiðar (60-75 ml) vatn (ágætt að nota vatn við stofuhita)
  • kókosmjöl til að strá yfir kökuna

AÐFERÐ

  1. Sigtið þurrefnin í skál og setjið til hliðar
  2. Setjið hrásykur, egg, agave, kaffi, vanilludropa og kókosolíu í bökunarskál og hrærið rólega saman með pískara og blandið svo jógúrtinni saman við
  3. Bætið þurrefnunum í skálina og hrærið rólega saman við með sleif ásamt vatninu. Deigið á ekki að vera stíft heldur eilítið fljótandi án þess þó að vera mjög vatnskennt. Bætið við fimmtu matskeiðinni af vatni ef ykkur finnst vanta meiri vökva***
  4. Klæðið 25 x 25 cm ferkantað form/skúffu með bökunarpappír, hellið deiginu í formið og notið sleikju til að dreifa því jafnt þannig að horn og endar séu ekki lægri en miðjan
  5. Bakið við 170-175°C í 24-28 mínútur og útbúið súkkulaðikremið á meðan kakan er í ofninum
  6. Látið kökuna kólna í alla vega hálftíma áður en þið setjið kremið á hana og stráið svo kókosmjöli yfir
***Þetta með vökvann er stillingaratriði og veltur á því hvert rakastigið er í eldhúsinu hverju sinni, líka á því hvaða tegund af spelti ég nota. Ég nota yfirleitt alltaf 4 msk (60 ml vatn).

SÚKKULAÐIKREM

Upphaflega setti ég saman þetta krem til þess að nota í heimagert heitt súkkulaði. Sú útgáfa er keimlík þessari og ég lofa að birta hana fljótlega hér á síðunni. [Uppfærsla 12. des. 2013: Ég hef nú þegar deilt öðru súkkulaðikremi sem ég er farin að nota á skúffukökur og marengstoppa.]

HRÁEFNI

  • 3 matskeiðar hrásykur (ekki nota of grófan)
  • 4 matskeiðar kakó
  • 2 matskeiðar kaffi
  • 1-2 matskeið vatn
  • ½ teskeið vanilludropar/vanillusykur úr heilsubúð
  • 2½ teskeiðar agave eða hreint hlynsíróp
  • ½ teskeið kókosolía, fljótandi
  • örlítið af fínu sjávarsalti

AÐFERÐ

  1. Blandið kakó og sykri saman í litla skál með skeið
  2. Bætið vanilludropum, kaffi og vatni út í og hrærið rólega saman með skeiðinni
  3. Bætið agave og kókosolíu saman við, saltið og smakkið til (áferð kremsins á að vera silkimjúk en ekki of fljótandi)
  4. Látið kremið standa við stofuhita á meðan kakan er að kólna og dreifið því svo yfir kökuna með sleikju

sunnudagur, 8. ágúst 2010

pizzabotn



Ég hef verið án bakstursofn í smá tíma og þegar ég loksins komst í ofn á föstudaginn þá var pizza það fyrsta sem fór inn í hann enda var ég að vígja pizzastein sem vinkona mín gaf mér í afmælisgjöf. Það er eðalgræja þegar gerðar eru þunnbotna pizzur. Þó ég væri að nota nákvæmlega sömu uppskrift og venjulega þá urðu botnarnir bara betri og hér sátu alsælir fjölskyldumeðlimir við borðið. CafeSigrun á uppskriftina að pizzabotninum sem tekur enga stund að útbúa enda er hann gerlaus. Þar sem við erum yfirleitt fimm þá geri ég alltaf tvöfalda uppskrift, eins og hún birtist hér. Ef ég er að gera pizzur fyrir færri þá skipti ég afganginum af deiginu í litla poka og set í frystinn.

PIZZABOTN

HRÁEFNI

  • 500 g spelti
  • 1½-2 matskeiðar vínsteinslyftiduft
  • fínt sjávarsalt eftir smekk (ég nota ekki nema ca. ½ tsk því ég geri þunnbotna pizzur og auk þess salta ég þær létt þegar þær koma úr ofninum)
  • ½-1 teskeið oregano (má sleppa)
  • 0-1 matskeið extra virgin ólífuolía
  • 225-275 ml heitt vatn (magnið veltur á rakanum í eldhúsinu hverju sinni, ég nota yfirleitt alltaf 250 ml)

AÐFERÐ

  1. Setjið þurrefnin í stóra skál og blandið saman með sleif
  2. Ef þið notið olíu, bætið henni þá út í 225 ml af vatni og hellið rólega í skálina, hrærið létt með sleifinni og aukið svo vatnið eins og þarf (þið finnið hvort þið þurfið meira vatn með því að klípa aðeins í deigið)
  3. Stráið spelti á borðplötuna og hnoðið deigið létt í höndunum. Deigið á að vera létt í sér og á ekki að klessast við borðplötuna
  4. Rífið bút af deiginu og hnoðið létt, fletjið þunnt út með kökukefli og setjið á bökunarplötu með bökunarpappír eða í sérstök pizzuform (ég geri 5-6 miðlungs pizzur úr öllu deiginu)
  5. Dreifið pizzasósu á botninn og bætið svo álegginu og ostinum
  6. Bakið við 230°C í ca. 7-10 mínútur
  7. Ég mæli með að skvetta smá extra virgin ólífuolíu yfir pizzuna þegar hún kemur úr ofninum og salta létt með maldon- eða sjávarsalti úr kvörn. Svo er gott að nota nýmalaðan svartan pipar fyrir þá sem vilja


Á þessum bæ er mismunandi hvað hver vill fá ofan á pizzuna. Ég sjálf elska grænar ólífur og stundum hef ég ekkert nema ólífur, mozzarella ost, smá parmesan og nýmalaðan svartan pipar á minni. Sonurinn vill bara margarítu en dæturnar vilja nokkrar pepperoni sneiðar. Eiginmaðurinn fær nokkrar pepperoni sneiðar, rauða papriku eða sólþurrkaða tómata, ólífur, mozzarella og parmesan. Það er um að gera að leyfa hugmyndafluginu að ráða þegar kemur að pizzum, alla vega hafa eina öðruvísi bara til að smakka.

 Spelt getur verið mjög mismunandi og það er háð rakastiginu í eldhúsinu hverju sinni. Það þarf því yfirleitt að stilla vökvann af þegar bökuð eru brauð og slíkt með spelti. Ég hef ekki enn þá fundið gróft spelti sem ég get notað eitt og sér í pizzubotna. Ég blanda því yfirleitt grófu og fínu spelti saman. Ef speltið er með einhverja stæla þá má nota lífrænt hveiti í neyð á móti grófu spelti. Ég nota annars aldrei hvítt hveiti í bakstur.

 Olía: Undanfarið hef ég alfarið sleppt að nota olíu í deigið og það kemur mjög vel út. Það er nú bara vegna þess að ég hef verið að nota aðra tegund af spelti og deigið verður hreinlega of stíft með olíunni.

 Vínsteinslyftiduft: Athugið að stundum er hægt að kaupa það í pökkum sem eru hugsaðir fyrir 500 g af mjöli og þá þarf ekki að mæla skeiðarnar. Ef þið eruð að nota venjulegt lyftiduft þá er 1 matskeið nóg.

 Það má kaupa lífrænt þurrger í pökkum sem eru hugsaðir fyrir 500 g af mjöli. Þið getið notað sömu uppskrift og bætið þá hálfri matskeið af hrásykri í deigið og látið það hefa sig í ca. 40 mínútur. Persónulega finnst mér vínsteinslyftiduftið miklu skemmtilegra, kannski bara vegna þess að gerlyktin og bragðið truflar mig alltaf örlítið, og með lyftiduftinu er deigið tilbúið um leið og hráefnunum hefur verið blandað saman.

NOTKUN PIZZASTEINS:

Sigrún á CafeSigrun bað mig að deila með notendum síðunnar reynslu minni af notkun pizzasteins og hér er svarið mitt svona nokkurn veginn:

  • Ég kynntist notkun pizzasteins fyrir mörgum árum í gegnum vinkonu mína [sú sem gaf mér steininn minn] og þegar ég fékk pizzur hjá henni þá fékk ég alltaf þá tilfinningu að ég væri að borða Eldsmiðjupizzur, sem voru í uppáhaldi hjá mér. Nú hef ég notað minn eigin stein í tvö ár og held að ég gæti bara ekki án hans verið. Á þessu heimili eru heimagerðar pizzur á hverjum einasta föstudegi og stundum oftar þannig að steinninn góði er í mikilli notkun.
  • Ég geng ekki svo langt að segja að bragð pizzunnar sé öðruvísi þegar pizzsteinn er notaður en það sem steinninn gerir er að hann dreifir hitanum jafnt og hann dregur líka í sig raka úr deiginu. Hann er því sérstaklega góður fyrir þá sem eru hrifnir af þunnbotna pizzum.
  • Það þarf að hita pizzasteininn með ofninum og það sem mér finnst best að gera er að setja bökunarpappír á disk sem er með engum brúnum, útbúa pizzuna á disknum og færa hana svo yfir á heitan pizzasteininn í ofninum. Ég útbý hverja pizzu bara rétt áður en ég set hana í ofninn þannig að það verður engin rakamyndun í bökunarpappírnum; pizzan rennur því auðveldlega af pappírnum yfir á steininn.
  • Fólk hefur oft sagt við mig að pizzasteinn sé bara vitleysa, að það sé enginn munur á pizzum sem eru settar á plötur eða stein. Það gerðist nú einu sinni - OG BARA EINU SINNI - að ég hreinlega gleymdi að hita steininn með ofninum og þurfti því að nota venjulega plötu. Ég held að hver einasti fjölskyldumeðlimur hafi spurt: „Af hverju eru pizzurnar einhvern veginn öðruvísi núna?“ Það var akkúrat botninn sem öllum fannst vera „eitthvað öðruvísi“ en venjulega.

laugardagur, 24. júlí 2010

súkkulaðihnetusmjör (eða íssósa)

Uppskrift: Súkkulaðihnetusmjör (eða íssósa) · Lísa Hjalt
Ég kaupi stundum lífrænt súkkulaðihnetusmjör fyrir börnin því þeim finnst það gott ofan á brauð og hrískökur (ég kaupi aldrei Nutella eða svipaðar tegundir). Einhvern tíma þegar börnin sátu við borðið að smjatta á þessu þá fékk ég hugmyndina að prufa einn daginn að gera mitt eigið, bara til að sjá útkomuna. Þessi grófa útgáfa er í raun alfarið hugmynd barnanna. Ég valdi hráefnin og þau stóðu hérna og smökkuðu og sögðu mér nákvæmlega hvort þau vildu meiri sykur eða kakó o.s.frv. Uppskriftin ætti því að vera algjörlega skotheld fyrir krakkabragðlauka. Við skulum bara segja að þetta súkkulaðihnetusmjör sé gott fyrir krakka á öllum aldri því mmmmm hljóðin í mér og bóndanum voru ekkert minni (mér persónulega finnst þó betra að skipta út einni msk af hrásykri fyrir msk af agave, bara upp á áferðina). Ég geymi smjörið í ísskáp en vegna kókosolíunnar þá harnar það og því er gott að láta það aðeins standa áður en það er borið fram. Við notum þetta líka sem íssósu og ég verð að segja að það er algjört lostæti á ís (það þarf ekki að láta það standa áður en það er notað út á ís).

SÚKKULAÐIHNETUSMJÖR

HRÁEFNI

  • 100 g heslihnetur
  • 2 matskeiðar hrásykur (eða 1 msk og þá 3 msk agave)
  • 2 matskeiðar agave síróp
  • 1 teskeið vanillusykur, lífrænn
  • 2½ matskeiðar kakó, helst lífrænt/fair-trade
  • 3½-4 matskeiðar kókosolía (ef í föstu formi er gott að láta krukkuna standa í skál með heitu vatni fyrir notkun)

AÐFERÐ

  1. Byrjið á því að þurrrista heslihneturnar á pönnu. Það gæti tekið góðar 10 mínútur að fá hýðið til að losna. Kælið svo hneturnar og nuddið hýðið af með fingrunum, svona eins og hægt er
  2. Fínmalið hneturnar í matvinnsluvél eins vel og þið getið. Það getur verið ágætt að stöðva vélina á einhverjum punkti og rétt aðeins hræra í hnetunum með sleikju, haldið svo áfram að láta vélina ganga
  3. Bætið öllu öðru hráefni út í (byrjið með 3½ msk af kókosolíu) og látið vélina vinna vel. Ef þið notið útgáfu með minna af hrásykri og meira agave þá skulið þið byrja með 3 msk af kókosolíunni

PS. Ég er enn að tilraunast með útgáfu með silkimjúkri áferð (líklega þarf ég aðra matvinnsluvél því mín vinnur ekki nógu vel á hnetunum) og lofa að deila henni með ykkur þegar ég er orðin sátt.

föstudagur, 9. júlí 2010

hummus

Fyrir mér er hummus eitt það mesta lostæti sem til er. Ég veit ekki hvað þetta er en þegar ég smakka hummus, leiðrétting, þegar ég er að blanda innihaldinu saman í matvinnsluvélinni þá finnst mér ég vera komin til Miðaustur- landa; sé fyrir mér eyðimörk, kameldýr, dökk augu og sandala, já og fallega tekrús. Hvort sem hummusinn á rætur sínar að rekja til 12. aldarinnar og Saladins soldáns eða hvort hann er upprunalega frá 18. öld skiptir mig ekki nokkru máli, hummusgerð fylgir hreint og beint dásamleg stemning og það er svo einfalt að búa hann til. Hummus á nýbökuðu brauði, með pítubrauði, chapati (indversk flatbrauð) eða hrís/quinoa-kökum með grænmeti er fín máltíð út af fyrir sig og svo er hann líka góður sem meðlæti. CafeSigrun á heiðurinn af þessari uppskrift og þetta eru hlutföllin sem mér finnst best. Sigrún segir að hummusinn verði betri ef hýðið er fjarlægt af kjúklingabaununum og því hef ég ávallt fylgt þessu ráði hennar.

HUMMUS

HRÁEFNI

  • 1 dós niðursoðnar kjúklingabaunir
  • 2½ matskeið tahini (sesammauk)
  • 1½ matskeið sítrónusafi
  • ¼ teskeið cumin, malað
  • cayennepipar á hnífsoddi eða aðeins meira af paprikudufti
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 2 matskeiðar undanrenna
  • 1 teskeið tamarisósa
  • 1-1½ matskeið extra virgin ólífuolía

AÐFERÐ

  1. Setjið baunirnar í skál með köldu vatni og látið standa í smá stund. Nuddið þær varlega með fingrunum til að losa og fjarlægja hýðið (börnunum mínum finnst mjög gaman að gera þetta fyrir mig) og hellið svo vatninu af
  2. Setjið allt innihald í matvinnsluvélina en byrjið með einungis 1 msk af ólífuolíunni. Þið finnið það á meðan vélin vinnur hvort það þurfi meira af olíu og þá bætið þið ½ msk til viðbótar
  3. Smakkið til með fínu sjávarsalti
  4. Það má bera hummusinn fram með smá klípu af cayennepipar og fínsaxaðri steinselju og það má líka skvetta smá ólífuolíu yfir hann

miðvikudagur, 7. júlí 2010

pekansmákökur

Ein af mínum uppáhaldsbókum er Ani's Raw Food Desserts en hana skrifar Ani Phyo sem er þekkt fyrir hráfæði. Persónulega þá leiðist mér þetta orð hráfæði, mér finnst það einstaklega fráhrindandi eins og margt sem flokkast undir hráfæði getur nú verið gott. Bókin hennar Ani geymir 85 uppskriftir og þær sem ég hef prufað nú þegar eru virkilega ljúffengar. Í miklu uppáhaldi hér á bæ er t.d. bláberjaeftirréttur með möndlum og döðlum sem er að finna hér á síðunni. Þessar pecansmákökur eru á bls. 121 í bókinni og úr hráefninu eiga að nást 10 kökur. Ég geri þær líklega minni en Ani sjálf því ég geri alltaf fleiri og ég nota eilítið aðra aðferð. Ani notar nefnilega Medjool döðlur sem þarf ekki að leggja í bleyti.

PEKANSMÁSKÖKUR

1 bolli pekanhnetur (250 ml)
1 teskeið kanill
1 teskeið appelsínusafi (ég nota 1 matskeið)
1 bolli döðlur


Leggið döðlurnar í bleyti í 30 mínútur.

Setjið pekanhnetur, kanil og appelsínusafa (ég kreisti safa úr appelsínu) í matvinnsluvél, veljið púlshnappinn og látið vélina vinna uns þið fáið litla klumpa. Hellið vatninu af döðlunum, bætið þeim út í og vinnið vel.

Ani bendir fólki á að taka 1½ msk af blöndunni, leggja á plötu með bökunarpappír og fletja út kökur. Ég hef þetta bara einfalt, tek smá slurk í lófann og rúlla aðeins eins og ég ætli að gera kúlu og móta svo bara kökur með fingrunum og skelli beint í ílát með loki.

Þessar geymast í viku í kæliskápnum og í nokkrar vikur í frysti.


ÚTFÆRSLUR

Ég geri stundum útfærslu af þessum kökum. Uppskriftin hennar Ani er virkilega góð og útfærsluna geri ég bara þegar ég er í stuði og vil jafnvel fá enn meira af kökum út úr hráefninu. Ég byrja á því að setja 40 g af möndlum með hýði í matvinnsluvélina og vinn þær mjög vel. Svo bæti ég öllu hráefni uppskriftarinnar út í skálina ásamt þessu: 1 tsk agavesíróp, ½ msk appelsínusafi og klípa af fínu sjávarsalti. Þetta vinn ég vel í vélinni og næ að gera 23-25 kökur.

miðvikudagur, 30. júní 2010

súkkulaðibitakökur

Ég lagðist í smá tilraunir um jólin 2008 því mig langaði að geta bakað súkkulaðibitakökur fyrir okkur sem væru ekki stútfullar af smjöri og púðursykri. Börnin elska svona kökur og eftir að ég breytti baksturshefðum mínum þá fann ég enga löngun til þess að hræra þessum hráefnum saman ásamt fleiri grömmum af konsúm súkkulaði. Mín útgáfa er auðvitað kaloríurík en ég nota hollara hráefni. Þó ég segi sjálf frá þá eru kökurnar svakalega góðar og ég hef fengið mikið lof fyrir þær. Myndina fékk ég að láni hjá CafeSigrun því vandamálið hingað til hefur verið það að börnin mín og eiginmaður (já, já, ég líka) eru svo fljót að klára þær að ég hreinlega næ aldrei að taka mynd! Og það þýðir ekkert að spyrja mig hvort þessar geymist vel því það er eitthvað sem ég hef aldrei þurft að hafa áhyggjur af.

SÚKKULAÐIBITAKÖKUR

HRÁEFNI

  • 10 döðlur, steinlausar (leggið í bleyti í 30 mínútur)
  • 2 matskeiðar agave eða hreint hlynsíróp
  • 1 (hamingju)egg
  • 75 g hrásykur
  • 1-2 teskeiðar vanilludropar (úr heilsubúð)
  • 2 matskeiðar lífrænt hnetusmjör (eða heimagert)
  • 4 matskeiðar kókosolía (látið krukkuna standa í skál með heitu vatni fyrir notkun)
  • 3-4 matskeiðar kakó (sumir vilja örugglega minnka kakómagnið og nota frekar meira af súkkulaðibitum)
  • 75 g spelti (hér má líka nota 50 g á móti 50 g af heslihnetum sem búið er að þurrrista, taka hýðið af og mala í spað í matvinnsluvél, ég hef notað malaðar möndlur á móti speltinu líka og það kom mjög vel út
  • 1 teskeið matarsódi
  • ½ teskeið sjávarsalt, fínt
  • 1½ dl af hnetum/möndlum eftir smekk (pecan, cashew, möndlur og hýðislausar heslihnetur eru góð blanda, ég ef líka notað saltlausar hnetur eingöngu)
  • 50 g (eða meira) lífrænt dökkt súkkulaði eða mjólkursúkkulaði t.d. frá Green & Black's eða Rapunzel. Veljið semi-sweet (ca. 50%) eða mjólkursúkkulaði ef þið eruð að baka fyrir börn því 70% súkkulaðið er of rammt fyrir þau
  • nokkrar valhnetur, hakkaðar (má sleppa en þær gefa góðan keim og eru meinhollar)
  • sesamfræ eftir smekk (má sleppa en gera kökurnar bara betri)

AÐFERÐ

  1. Byrjið á því að skella öllum hnetum/möndlum og súkkulaði í matvinnsluvél og myljið gróft, setjið til hliðar
  2. Setjið egg, hrásykur, vanilludropa, hnetusmjör og kókosolíu í skál og hrærið saman með pískara, hrærið svo kakóinu rólega saman við
  3. Hellið vatni af döðlum og setjið þær í matvinnsluvél ásamt agave sírópi og maukið vel, blandið svo döðlumaukinu út í hina blönduna
  4. Blandið spelti, matarsóda og salti saman í skál og hrærið þessu saman við blönduna, bara rólega með sleif
  5. Bætið svo hnetum/möndlum/sesamfræjum ásamt súkkulaði út í deigið og hrærið rólega saman við með sleifinni
  6. Notið skeið (ca. kúfaða teskeið) til þess að raða kökunum á plötu með bökunarpappír
  7. Bakið við 170°C í blástursofni í 7-9 mínútur (ofnar eru mismunandi en ekki baka þessar of lengi). Ef ég hef kökurnar frekar stórar þá næ ég að gera 24-28 kökur en það má hafa þær minni og gera þá mun fleiri

sunnudagur, 13. júní 2010

veggie chilli

Að mínu mati getur chilli ekki klikkað, það er klassískt og það má leika sér endalaust með útgáfur og meðlæti. Mig hefur alltaf langað til að þróa mína eigin chilli uppskrift því áður fyrr fór ég eftir hinum og þessum uppskriftum og þó að útkoman væri góð þá fannst mér alltaf eitthvað vanta. Í fyrrasumar ákvað ég svo að ráðast í tilraunir og byrjaði á því að nóta hjá mér allt hráefni sem ég vildi nota í mína eigin uppskrift. Ég vildi ekki hafa hana of sterka vegna barnanna en þau eru nú ýmsu vön þegar kemur að sterkum réttum og það má nota meðlæti eins og sýrðan rjóma, ost eða guacamole til að deyfa bragðið örlítið. Börnin eru vitlaus í þetta og kalla þetta bara mömmu chilli. Uppskriftin er laus við kjöt enda finnst mér veggie chilli, eins og það kallast, miklu betra.

VEGGIE CHILLI

HRÁEFNI

  • 1 meðalstór laukur
  • 4 stór hvítlauksrif
  • 2 grænar paprikur, eða ein rauð og ein græn
  • 1 ferskt, grænt jalapeno eða grænt chilli aldin
  • 1½ matskeið létt ólífuolía eða önnur góð olía
  • 1 matskeið oregano
  • ¼-½ teskeið chillipipar*
  • 1 matskeið blackstrap mólassi (eða hrásykur/agave)
  • 2 matskeiðar mulið broddkúmen (e. cumin)
  • 1 teskeið mulinn kóríander
  • 1 teskeið mulið túrmerik
  • 1 dós svartar - eða nýrnabaunir
  • 1 dós pintóbaunir
  • 1 dós tómatar (eða 2 dósir og sleppa þá tómatmaukinu)
  • 2 matskeiðar tómatmauk, vel kúfaðar
  • 100-200 ml vatn
  • 1 teskeið sjávarsalt
  • má sleppa: lítil dós maísbaunir

* Jafnvel meira eða minna, fer eftir hversu öflugt chilli þið notið. Ég hef keypt mjög sterkt sem kallar á að helminga chilli í öllum uppskriftum. Mér finnst gott að chillipipar rífi aðeins í en er ekki hrifin af því þegar tungan logar og varla nokkuð annað bragð finnst af matnum. (þegar ég fyrst setti uppskriftina saman notaði ég 2 msk af mjög mildum chillpipar sem var einhvers konar blanda.)

AÐFERÐ

  1. Byrjið á því að setja baunirnar í sigti, skolið af þeim og látið liggja í sigtinu þar til þið notið þær. Þið getið alveg notað 2 dósir af nýrnabaununum og sleppt pintóbaununum
  2. Blandið kryddum í litla skál og setjið til hliðar (notið vönduð krydd)
  3. Skerið laukinn og fínsaxið hvítlaukinn. Fræhreinsið paprikurnar og skerið í bita. Fræhreinsið jalapeno/chilli aldin og fínsaxið. Setjið þetta allt í stóran pott, veltið upp úr olíunni og léttsteikið á miðlungs hita
  4. Hellið kryddblöndunni út í pottinn og blandið vel saman við
  5. Bætið baunum, tómötum/tómatmauki, vatni og mólassa út í ásamt salti og blandið þessu rólega saman
  6. Stillið á fullan hita og látið suðuna koma upp. Setjið lok á pottinn, lækkið hitann, á minnstu eða næstminnstu stillingu, og látið malla með loki í 20 mínútur og án loks í 10 mínútur til viðbótar. Ef þið notið maísbaunir: Skolið og sigtið og bætið þeim í pottinn undir lokin. (Ef þið hafið tíma þá er gott að láta þetta malla með loki í 30 mínútur og án loks í 10 mínútur. Eða lengur; upphitað chilli er jafnvel enn betra.)

  • Það má nota eina dós til viðbótar af svörtum baunum, nýrna- eða pintó- en þá finnst mér gott að bæta smá tómatmauki út í og meira af vatni.
  • Hugmyndir að meðlæti: sýrður rjómi, cheddar ostur, guacamole heimabakað brauð, lífrænt tortilla snakk, hrískökur eða hvað sem er svo lengi sem ykkur finnst það gott. Reynið bara að forðast óhollt meðlæti með þessu því þetta er jú holl og góð uppskrift.
  • Það er mjög gott að hita upp chilli daginn eftir. Ef þið eigið stóra fjölskyldu þá má hreinlega tvöfalda uppskriftina til að tryggja nægan afgang. Það er ekki slæmt að taka með sér chilli í vinnuna ef þið hafið aðstöðu til þess að hita það upp.
  • Það er mjög gott að grilla samloku með chilli og osti. Einnig mæli ég með að setja chilli ofan á baguette ásamt osti og sneiddum vorlauk og grilla/hita í ofni.

PS. Í mörgum búðum erlendis má fá lífræna hakkaða tómata í 500 ml fernum. Ef þið komist í slíkt þá getið þið notað tvær fernur í uppskriftina og notað þá þrjár dósir af baunum og þið þurfið að salta bara örlítið meira.

fimmtudagur, 10. júní 2010

pizzasósa

© Lísa Hjalt | Lestur & Latte
Uppskriftina að pizzasósunni er nú að finna á Lestur & Latte blogginu (smellið á tengilinn).

þriðjudagur, 1. júní 2010

kryddbrauð

© Lísa Hjalt | Lestur & Latte
Uppskriftina að kryddbrauðinu er nú að finna á Lestur & Latte blogginu (smellið á tengilinn).

fimmtudagur, 27. maí 2010

baunagums

Ég viðurkenni fúslega að nafnið á þessari uppskrift er allt annað en frumlegt en maðurinn minn kallar þetta alltaf baunagums Lísu þannig að nafnið er komið til að vera. Ég nota ýmist pintó- eða kjúklingabaunir í gumsið og hef það sem meðlæti. Stundum blanda ég því saman við hrísgrjón (með grjónum er það í raun fín máltíð fyrir grænmetisætur, með t.d. salati). Eins og svo margir aðrir þá nota ég gjarnan grjón með mat en soðin grjón eingöngu eru óspennandi til lengdar. Ég geri því nokkuð af því að poppa þau aðeins upp, eins og sagt er, og þetta baunagums er ein aðferð til þess. Það gefur grjónunum góða fyllingu og skapar smá indverska stemningu vegna kryddsins. Mér og eiginmanninum finnst þetta alveg ofboðslega gott þannig að stundum læt ég ekki allt gumsið út í grjónin heldur tek örlítið frá í litla skál fyrir okkur tvö. Kjúklingur og baunagums með eða án grjóna ásamt mangó chutney er ljúf máltíð.

BAUNAGUMS

HRÁEFNI

  • 1 bolli vatn (250 ml)
  • ½-1 gerlaus grænmetisteningur
  • 1 dós pintóbaunir eða kjúklingabaunir
  • 1 matskeið sítrónusafi, ferskur
  • 1 teskeið garam masala

AÐFERÐ

  1. Byrjið á því að skola af baununum í sigti
  2. Setjið allt hráefnið í frekar stóra pönnu, hrærið rólega á meðan teningurinn leysist upp og látið suðuna koma upp (tekur stuttan tíma). Lækkið hitann og látið malla í ca. 15 mínútur, ekki of lengi þannig að allur vökvi þorni upp
  3. Setjið í litla skál og berið fram sem meðlæti eða blandið saman við soðin hrísgrjón (ég sýð 1-1½ bolla af grjónum og blanda baununum svo saman við)

sunnudagur, 23. maí 2010

lasagna með svörtum baunum

Upphaflega var ég með nýrnabaunir í titli þessarar uppskriftar en í langan tíma hef ég notað svartar baunir og það er orðið vaninn. María dóttir mín var hvatinn að þessari uppskrift en hún er bókstaflega óð í lasagna. Þar sem ég er lítið hrifin af útgáfum með hakki þá langaði mig að nota baunir og þessi uppskrift fæddist svo til um leið og ég setti svuntuna á mig. Ef María mætti ráða þá væri þetta í matinn á hverju kvöldi. Hugmyndina að hvítu sósunni fékk ég góðfúslega lánaða hjá (Cafe)Sigrúnu og gerði smávægilegar breytingar.

LASAGNA MEÐ SVÖRTUM BAUNUM (EÐA NÝRNABAUNUM)

HRÁEFNI

RAUÐ SÓSA

  • 1 matskeið létt ólífuolía eða önnur góð olía
  • 1 laukur, fínsaxaður
  • 3 hvítlauksrif, fínsöxuð
  • 1 gul eða rauð paprika, skorin í bita
  • 1 gerlaus grænmetisteningur
  • 2 dósir tómatar
  • 1 matskeið óreganó
  • 1 matskeið fersk basilíka eða 1 teskeið þurrkuð
  • 1 teskeið sætt chilli
  • 1 teskeið Modena balsamedik
  • 1 dós svartar baunir eða nýrnabaunir
  • sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar eftir smekk
  • má sleppa: maísbaunir eftir smekk
  • má sleppa: ein lúka spínat, saxað gróft

HVÍT SÓSA

  • 1 stór dós kotasæla (ca. 450 g)
  • 2 (hamingju)egg*
  • 150 g rifinn ostur (gott að nota mozzarellablöndu)
  • ½ teskeið múskat

ANNAÐ

  • 100 g rifinn ostur
  • nýrifinn parmesan ostur eftir smekk
  • 10-12 lasagnaplötur (helst án hvíts hveitis)

AÐFERÐ

RAUÐ SÓSA
  1. Setjið baunirnar í sigti, skolið af þeim og látið liggja í sigtinu þar til þið notið þær
  2. Veltið lauk upp úr olíu og steikið á pönnu við meðalhita þar til hann byrjar að mýkjast. Bætið papriku út í og loks hvítlauk og steikið í nokkrar mínútur
  3. Setjið grænmetistening á pönnuna og blandið saman við
  4. Bætið tómötum á pönnuna og hækkið hitann
  5. Blandið öllum kryddum, kryddjurtum og ediki saman við
  6. Skellið baunum út í (maís og spínati ef notað), saltið og piprið eftir smekk og stillið á lægsta eða meðalhita

HVÍT SÓSA

  1. Hrærið kotasælu og eggjum saman í stórri skál
  2. Bætið 150 g af rifnum osti, kryddið með múskati og blandið saman
  1. Forhitið ofn samkvæmt leiðbeiningum á lasagnaplötupakka og stillið ofngrind neðst
  2. Slökkvið undir pönnunni, setjið smá af rauðri sósu í botninn á eldföstu móti og raðið 3-4 lasagnaplötum ofan á (veltur á stærð mótsins)
  3. Setjið hvíta sósu ofan á plöturnar, svo rauða sósu og aftur lasagnaplötur. Endurtakið eftir þörfum og endið á restinni af hvítri og rauðri sósu
  4. Stráið 100 g af rifnum osti ásamt parmesan yfir og bakið neðst í ofni samkvæmt leiðbeiningum á pakka (plöturnar sem ég nota kalla á 220°C í 25 mínútur)

* Sleppa má eggjum og nota þá um 600 g af kotasælu

Berið fram með til dæmis spínati, einföldu salati, grófu brauði eða hvítlauksbrauði. Það er mjög gott að nota gerlausa pizzabotnsuppskrift eða snittubrauðin á CafeSigrun til að útbúa hvítlauksbrauð. Ef ég nota snittubrauðin þá baka ég þau fyrr um daginn eða deginum áður og skelli í frystinn. Ég læt ólífuolíu, hvítlauk, óreganó og örlítið sjávarsalt í litla skál og pensla heit brauðin/nýbakaðan pizzabotninn.

fimmtudagur, 20. maí 2010

ávaxtakúlur

Þessar ávaxtakúlur eru í miklu uppáhaldi hjá mér og mínu fólki. Þær eru ekki bara ljúffengar og hollar heldur er minningin um það hvernig ég fann uppskriftina svo skemmtileg. Ég á vinkonu sem er mikill sælkeri og er óhrædd við að gera tilraunir í eldhúsinu. Einu sinni bauð hún mér heim til sín í mini-jólaboð, bara ég og hún og yndisleg jólastemning. Eftir ljúffenga máltíð sátum við með heimagerða latte og dökkt, lífrænt súkkulaði og flettum tímaritum með jólaþemum. Síðar um kvöldið útbjó hún heitt súkkulaði, setti dreitil af Baileys út í og bar fram með þeyttum rjóma. Ég var að fletta Bolig þegar ég rakst á þessa uppskrift sem birtist hér í sömu hlutföllum og í blaðinu góða. Það er svo gott að eiga ávaxtakúlurnar í kæli og næla sér í með kaffinu. Ég mæli með því að setja nokkrar í lítið, sætt nestisbox og hafa með í vinnuna/skólann.

ÁVAXTAKÚLUR

HRÁEFNI

  • 100 g þurrkaðar aprikósur (ef mögulegt, notið þá þessar brúnlituðu)
  • 100 g döðlur, steinlausar
  • ca. 100 g kókosmjöl (mér finnst betra að nota gróft)
  • ½ teskeið vanillusykur (notið lífrænan eða vanilludropa úr heilsubúð)
  • ca. 25 g kakó
  • 2-3 matskeiðar kókosolía (mér finnst 2 msk nóg, látið krukkuna standa í skál með heitu vatni fyrir notkun til að fá fljótandi olíu)
  • kókosmjöl eða kakó til að velta kúlunum upp úr

AÐFERÐ

  1. Leggið aprikósur og döðlur í bleyti í 30 mínútur
  2. Hellið vatninu af ávöxtunum og setjið í matvinnsluvél ásamt kókosmjölinu í ca. hálfa mínútu
  3. Setjið restina af hráefninu út í og látið vélina ganga í smá stund
  4. Útbúið litlar kúlur og veltið þeim upp úr kókosmjöli eða kakó
  5. Kælið áður en þið berið fram (geymið í lokuðu íláti í kæli)

ÚTFÆRSLUR

  • Ég hef gert þessar með 50 g af möndlum á móti 50 g kókosmjöli. Ég lét möndlurnar liggja í bleyti með ávöxtunum og bætti svo 2 valhnetum í matvinnsluvélina líka. Konfektið var virkilega gott en ég rúllaði nokkrum kúlum upp úr kókosmjöli og lét hinar vera óhúðaðar
  • Ég hef líka sleppt því að velta kúlunum upp úr kókosmjöli/kakó og brætt dökkt, lífrænt súkkulaði yfir vatnsbaði á vægum hita. Ég dýfi kúlunum alveg ofan í eða bara að hluta og legg þær á bökunarpappír áður en þær fara í ílát og í kæli.

PS. Á CafeSigrun er að finna hátíðlega útgáfu af þessu konfekti sem er virkilega góð.

þriðjudagur, 18. maí 2010

bláberjamöffins

Um daginn var ég að gera bláberja- og hindberjaþeyting (smoothie) fyrir mig og soninn þegar óstjórnleg löngun í bláberjamöffins tók völdin. Ég elska bláber, sem er heppilegt því þau eru rík af andoxunarefnum, og mér verður reglulega hugsað til risastórra, kanadískra bláberja sem ég borðaði í fyrra. Ég ákvað að gera tilraun með pekan- og valhnetum ásamt smá kanil sem kom ágætlega út en var samt ekki alveg með því bragði sem ég var að leita eftir. Mig langaði í eitthvað eilítið mýkra og hugsaði með mér að ég hefði átt að nota möndlur frekar. Daginn eftir var andinn yfir mér og ég réðst í aðra tilraun. Möffinsin heppnuðust svakalega vel og krakkarnir voru ekki lengi að klára þau (góður mælikvarði á gæði baksturs; börn ljúga ekki). Það er eðal að eiga svona möffins í frystinum og kippa með sér í vinnuna eða setja í nestisbox krakkanna. Ég vil benda á að þar sem uppskriftin inniheldur svo til enga olíu þá þarf að nota silíkonmöffinsform; það er ekki hægt að nota pappírsform.

BLÁBERJAMÖFFINS

HRÁEFNI

  • 1½ bolli spelti (1 bolli = 250 ml)
  • 2 teskeiðar vínsteinslyftiduft
  • ½ teskeið sjávarsalt, fínt
  • 50 g möndlur, saxaðar (ég nota með hýði)
  • 1 (hamingju)egg
  • 1 eggjahvíta
  • ½ bolli hrásykur (100 g)
  • ½ matskeið agave eða hreint hlynsíróp
  • ⅓ bolli sojamjólk (+ 1 matskeið ef þarf)
  • 2½-3 matskeiðar eplamauk (notið lífrænt eða gerið ykkar eigið, sjá neðar)
  • 100 g frosin bláber + ½ matskeið hrásykur

Hugmyndin að innihaldi eplamauksins kemur frá (Cafe)Sigrúnu en á vefnum hennar er að finna hollar og góðar uppskriftir fyrir smábörn. Ég náði 2½ msk úr því hráefni sem ég notaði (ég notaði frekar lítið epli sem var ca. 110 g áður en ég afhýddi það):


  • 1 epli, afhýtt og skorið í bita (kjarni ekki notaður)
  • ½ teskeið sojamjólk/léttmjólk
  • ½ teskeið kókosolía (látið krukkuna standa í skál með heitu vatni fyrir notkun)

  • AÐFERÐ

    1. Setjið bláberin í litla skál, hrærið ½ msk af hrásykri út í og látið þiðna á borðinu í 7 mínútur eða svo. Setjið skálina svo strax aftur í frysti og geymið þar uns þið notið bláberin í deigið (þið getið þess vegna gert þetta deginum áður til að undirbúa baksturinn)
    2. Ef þið gerið ykkar eigið eplamauk (mjög auðvelt) þá byrjið þið á því að gufusjóða eplabitana í 6 mínútur, setjið þá svo í djúpa skál ásamt ½ tsk af mjólk og kókosolíu og notið töfrasprota til að mauka (það má líka alveg stappa vel með gaffli)
    3. Blandið þurrefnum saman í stórri skál
    4. Saxið möndlur í matvinnsluvél og blandið saman við þurrefnin (ég saxa þær mjög vel þannig að hluti þeirra verður nánast að mjöli)
    5. Blandið eggi, eggjahvítu, hrásykri, agave, mjólk og eplamauki saman í skál og hrærið létt saman, hellið svo blöndunni í skálina með þurrefnunum og bara rétt veltið deiginu þar til hráefnin hafa blandast saman. Deigið á að vera létt í sér og því á alls ekki að hræra mikið. Ef ykkur finnst þurfa, bætið þá 1 msk af mjólk
    6. Takið sykruðu bláberin úr frysti og notið sömu aðferð til að blanda þeim rólega saman við deigið, bara „fold them in,“ eins og Kanarnir segja
    7. Smyrjið silíkonmöffinsform með smá kókosolíu áður en deigið fer í formin (12-14 stykki). Þið getið ekki notað pappírsform fyrir þessa uppskrift þar sem hún inniheldur litla fitu
    8. Bakið við 200°C á blæstri í 20-23 mínútur

    Þar sem ég er nýbúin að setja saman þessa uppskrift þá á ég líklega eftir að leika mér með hana, ekki grunnuppskriftina þó. Ég á við valmöguleika sem má alveg sleppa og ef þeir koma vel út þá bæti ég þeim inn síðar meir.

    laugardagur, 15. maí 2010

    frönsk súkkulaðikaka


    Franskar súkkulaðikökur eru að mínu mati bestu súkkulaðikökurnar en þessar hefðbundnu uppskriftir innihalda mikið magn af sykri, smjöri og jafnvel suðusúkkulaði (trúi varla að ég hafi bakað svona kökur hér áður fyrr því núna er þetta eitthvað svo fjarri mér). Ég viðurkenni að þessi var lengi í þróun því þegar ég byrjaði á henni þá var ég enn að baka með smjöri en að fikra mig áfram með að minnka það. Þegar ég endanlega sleppti því þá fullkomnaðist kakan, mínu fólki til mikillar gleði. Þar sem kakan hefur fengið frábærar viðtökur á CafeSigrun þá verð ég að hafa hana sem fyrstu uppskriftina á síðunni minni. Sigrún var minn innblástur og ég vil alltaf meina að hún eigi hluta af henni. Hún á alla vega hugmyndina að cashewhnetumaukinu en það má nota það eða kókosolíu eingöngu. Ég hef líka notað blöndu af kókosolíu og lífrænu hnetusmjöri og það kemur vel út. Sonur minn varð 4ra í fyrra og hann heimtaði þessa köku með Spiderman kerti og varð að ósk sinni – alsæll. Ég held að það segi ýmislegt um ágæti hennar. Þessi er ekta frönsk, blaut í miðjunni og hrikalega góð.

    FRÖNSK SÚKKULAÐIKAKA

    HRÁEFNI

    • 10 döðlur, steinlausar, lagðar í bleyti
    • 1 dl cashewhnetur, lagðar í bleyti
    • 1½ dl lífrænn hrásykur (ekki nota of grófan)
    • 1 egg (notið helst hamingjuegg)
    • 1 eggjahvíta
    • 4 msk cashewhnetur + 4 msk kókosolía eða 2 msk lífrænt cashewhnetumauk + 4 msk kókosolía eða 6  msk kókosolía (látið krukkuna standa í skál með heitu vatni fyrir notkun)***
    • 1 tsk vanilludropar eða vanillusykur úr heilsubúð
    • 1¼ dl spelti
    • 4 msk kakó (kaupið lífrænt framleitt og helst fair-trade líka)
    • 1 tsk vínsteinslyftiduft
    • ¼ tsk sjávarsalt, fínt
    • ögn af muldum valhnetum (má sleppa en þær gefa góðan keim)
    • lúxusútgáfa: 20-25 g af söxuðu 70% súkkulaði (kaupið lífrænt sem inniheldur hrásykur, t.d. frá Green & Black’s eða Rapunzel)

    *** Ég hef líka notað 2 msk af lífrænu hnetusmjöri og 4 msk af kókosolíu sem kom vel út.

    AÐFERÐ

    1. Byrjið á því að leggja döðlur og cashewhnetur í bleyti í 30 mínútur
    2. Ef þið ætlið að gera ykkar eigið cashewhnetumauk þá setjið þið 4 msk af cashewhnetum í matvinnsluvél og blandið á fullum hraða í ca. 1 mínútu. Þið bætið svo 4 msk af kókosolíu út í, einni matskeið í einu, blandið vel í vélinni og setjið til hliðar (þið sleppið þessu stigi ef þið notið tilbúið ásamt kókosolíu eða kókosolíu eingöngu)
    3. Hellið vatninu af döðlunum og cashewhnetunum, setjið þær í matvinnsluvél og vinnið vel. Setjið til hliðar
    4. Setjið hrásykur og egg í bökunarskál og hrærið með gaffli/pískara, bætið kókosolíu eða cashewhnetumauki ásamt vanilludropum út í og hrærið uns allt blandast vel
    5. Blandið saman þurrefnum, spelti, vínsteinslyftidufti og salti, í sér skál og sigtið kakóið út í, hellið þessu út í hina blönduna og hrærið rólega saman með sleif
    6. Blandið síðan maukuðu döðluðunum og cashewhnetunum saman við ásamt valhnetum og söxuðu súkkulaði, ef þið notið lúxusútgáfuna
    7. Smyrjið hringlaga form (passa að þvermálið sé ekki meira en 23 cm) með kókosolíu eða klæðið það með bökunarpappír og bakið við 180°C á blæstri í 12-15 mínútur (það er mjög mikilvægt að baka kökuna ekki of lengi því hún á að vera blaut í miðjunni, athugið þó að ofnar eru mismunandi. Ég var að gera tilraun með baksturstíma á undir- og yfirhita þegar ég tók myndina að ofan og ég hefði þurft að baka kökuna aðeins skemur, hún á að vera blautari)
    8. Leyfið kökunni aðeins að kólna og berið svo fram með rjóma og jafnvel jarðarberjum, bláberjum eða hindberjum

    Pin It button on image hover