miðvikudagur, 7. júlí 2010

pekansmákökur

Ein af mínum uppáhaldsbókum er Ani's Raw Food Desserts en hana skrifar Ani Phyo sem er þekkt fyrir hráfæði. Persónulega þá leiðist mér þetta orð hráfæði, mér finnst það einstaklega fráhrindandi eins og margt sem flokkast undir hráfæði getur nú verið gott. Bókin hennar Ani geymir 85 uppskriftir og þær sem ég hef prufað nú þegar eru virkilega ljúffengar. Í miklu uppáhaldi hér á bæ er t.d. bláberjaeftirréttur með möndlum og döðlum sem er að finna hér á síðunni. Þessar pecansmákökur eru á bls. 121 í bókinni og úr hráefninu eiga að nást 10 kökur. Ég geri þær líklega minni en Ani sjálf því ég geri alltaf fleiri og ég nota eilítið aðra aðferð. Ani notar nefnilega Medjool döðlur sem þarf ekki að leggja í bleyti.

PEKANSMÁSKÖKUR

1 bolli pekanhnetur (250 ml)
1 teskeið kanill
1 teskeið appelsínusafi (ég nota 1 matskeið)
1 bolli döðlur


Leggið döðlurnar í bleyti í 30 mínútur.

Setjið pekanhnetur, kanil og appelsínusafa (ég kreisti safa úr appelsínu) í matvinnsluvél, veljið púlshnappinn og látið vélina vinna uns þið fáið litla klumpa. Hellið vatninu af döðlunum, bætið þeim út í og vinnið vel.

Ani bendir fólki á að taka 1½ msk af blöndunni, leggja á plötu með bökunarpappír og fletja út kökur. Ég hef þetta bara einfalt, tek smá slurk í lófann og rúlla aðeins eins og ég ætli að gera kúlu og móta svo bara kökur með fingrunum og skelli beint í ílát með loki.

Þessar geymast í viku í kæliskápnum og í nokkrar vikur í frysti.


ÚTFÆRSLUR

Ég geri stundum útfærslu af þessum kökum. Uppskriftin hennar Ani er virkilega góð og útfærsluna geri ég bara þegar ég er í stuði og vil jafnvel fá enn meira af kökum út úr hráefninu. Ég byrja á því að setja 40 g af möndlum með hýði í matvinnsluvélina og vinn þær mjög vel. Svo bæti ég öllu hráefni uppskriftarinnar út í skálina ásamt þessu: 1 tsk agavesíróp, ½ msk appelsínusafi og klípa af fínu sjávarsalti. Þetta vinn ég vel í vélinni og næ að gera 23-25 kökur.

Pin It button on image hover