fimmtudagur, 19. ágúst 2010

skúffukaka



Ég hef aldrei verið mikið fyrir skúffukökur en það breyttist fyrr á þessu ári. Ég gat ekki annað en lagst í tilraunir í febrúar þegar María mín bað mig svo fallega um að þróa köku sem væri „bara svona venjuleg súkkulaðikaka, ekki með neinum döðlum, möndlum eða hnetum.“ Þessi tilraun heppnaðist afskaplega vel og ég notaði súkkulaðikrem sem ég setti saman í fyrra til að búa til heitt súkkulaði; gerði bara örlitla breytingu á því fyrir kökuna. Börnin eru einstaklega hrifin af þessari köku – við hjónin líka og allir sem hafa fengið að smakka – og kosturinn við hana er sá að það er svo einfalt að skella í hana og tekur ekki langan tíma. Ágætt líka stundum að gefa matvinnsluvélinni frí og hvíla sig á hnetunum. Þessi kaka er að sjálfsögðu laus við smjör, púðursykur og hvítan sykur og hvort sem þið trúið því eða ekki þá er ekki nema ein matskeið af kókosolíu í henni. Kakan er ekki stór en mér finnst skúffukökur vera það seðjandi að ég get aldrei borðað mikið í einu. [Uppfærsla 22. feb. 2013: Ég hef gert örlitlar breytingar á uppskriftinni og ég breytti eilítið baksturstímanum og hitanum því ég er hætt að baka kökuna á blæstri. Ég hef einnig sett saman annað krem sem ég nota á skúffukökuna.]

SKÚFFUKAKA, BOTNINN

HRÁEFNI

  • 1 bolli spelti (130 g)
  • 3-3½ matskeið gæða kakó (fair-trade)
  • 2 teskeiðar vínsteinslyftiduft
  • ½ teskeið sjávarsalt, fínt
  • ½ bolli lífrænn hrásykur (= 100 g)
  • 1 stórt (hamingju)egg
  • 1½ matskeið hreint hlynsíróp eða agave
  • má sleppa: 1 matskeið gott kaffi (þarf ekki að vera nýlagað)
  • 1 teskeið vanilludropar úr heilsubúð (eða lífrænn vanillusykur)
  • 1 matskeið kókosolía (látið krukkuna standa í skál með heitu vatni fyrir notkun)
  • 5 matskeiðar (75 ml) hrein eða grísk jógúrt
  • 4-5 matskeiðar (60-75 ml) vatn (ágætt að nota vatn við stofuhita)
  • kókosmjöl til að strá yfir kökuna

AÐFERÐ

  1. Sigtið þurrefnin í skál og setjið til hliðar
  2. Setjið hrásykur, egg, agave, kaffi, vanilludropa og kókosolíu í bökunarskál og hrærið rólega saman með pískara og blandið svo jógúrtinni saman við
  3. Bætið þurrefnunum í skálina og hrærið rólega saman við með sleif ásamt vatninu. Deigið á ekki að vera stíft heldur eilítið fljótandi án þess þó að vera mjög vatnskennt. Bætið við fimmtu matskeiðinni af vatni ef ykkur finnst vanta meiri vökva***
  4. Klæðið 25 x 25 cm ferkantað form/skúffu með bökunarpappír, hellið deiginu í formið og notið sleikju til að dreifa því jafnt þannig að horn og endar séu ekki lægri en miðjan
  5. Bakið við 170-175°C í 24-28 mínútur og útbúið súkkulaðikremið á meðan kakan er í ofninum
  6. Látið kökuna kólna í alla vega hálftíma áður en þið setjið kremið á hana og stráið svo kókosmjöli yfir
***Þetta með vökvann er stillingaratriði og veltur á því hvert rakastigið er í eldhúsinu hverju sinni, líka á því hvaða tegund af spelti ég nota. Ég nota yfirleitt alltaf 4 msk (60 ml vatn).

SÚKKULAÐIKREM

Upphaflega setti ég saman þetta krem til þess að nota í heimagert heitt súkkulaði. Sú útgáfa er keimlík þessari og ég lofa að birta hana fljótlega hér á síðunni. [Uppfærsla 12. des. 2013: Ég hef nú þegar deilt öðru súkkulaðikremi sem ég er farin að nota á skúffukökur og marengstoppa.]

HRÁEFNI

  • 3 matskeiðar hrásykur (ekki nota of grófan)
  • 4 matskeiðar kakó
  • 2 matskeiðar kaffi
  • 1-2 matskeið vatn
  • ½ teskeið vanilludropar/vanillusykur úr heilsubúð
  • 2½ teskeiðar agave eða hreint hlynsíróp
  • ½ teskeið kókosolía, fljótandi
  • örlítið af fínu sjávarsalti

AÐFERÐ

  1. Blandið kakó og sykri saman í litla skál með skeið
  2. Bætið vanilludropum, kaffi og vatni út í og hrærið rólega saman með skeiðinni
  3. Bætið agave og kókosolíu saman við, saltið og smakkið til (áferð kremsins á að vera silkimjúk en ekki of fljótandi)
  4. Látið kremið standa við stofuhita á meðan kakan er að kólna og dreifið því svo yfir kökuna með sleikju

Pin It button on image hover