fimmtudagur, 23. september 2010

banana- og möndlumöffins

Þessi möffins eru sérstaklega hugsuð fyrir börnin mín til þess að taka með sér í skólann því þau mega ekki koma með neitt sem inniheldur súkkulaði. Það er bara holl fita í þessum, bragðið er ekki of sætt og ég lét bara örlítið kakó í deigið til þess að fá keim. Ef ég vakna snemma þá skelli ég stundum í þessi og gef fólkinu mínu með morgunmatnum því aðferðin er einföld. Ég á eilítið nammilegri útgáfu af þessari uppskrift sem ég ætla að birta síðar með mynd þegar ég eignast nýja myndavél (myndavélin mín eyðilagðist um daginn og ég þurfti að taka þessa mynd í tölvunni). Ég minni svo á að þessi verður að baka í silíkonmöffinsformum þar sem þau innihalda litla olíu (það þarf ekki meira af olíu því möndlurnar innihalda jú fitu líka).

BANANA- OG MÖNDLUMÖFFINS

HRÁEFNI

  • 1½ bolli fínt spelti
  • 2 teskeiðar vínsteinslyftiduft
  • 2 teskeiðar kakó, lífrænt/fairtrade
  • ½ teskeið fínt sjávarsalt
  • 50 g hakkaðar möndlur eða möndluflögur
  • 1 (hamingju)egg
  • 1 eggjahvíta
  • ½ bolli hrásykur
  • 1 teskeið vanilludropar
  • 2 stórir bananar, stappaðir
  • 2 matskeiðar sojamjólk (+1 msk ef ykkur finnst þurfa)
  • ½ matskeið kókosolía (ef í föstu formi látið krukkuna standa í skál með heitu vatni fyrir notkun)

AÐFERÐ

  1. Blandið þurrefnum saman í stórri skál og blandið svo hökkuðum möndlum saman við
  2. Pískið eggin létt í minni skál, hrærið sykrinum saman við, stappið svo bananana og bætið þeim út í ásamt vanilludropum, mjólk og kókosolíu
  3. Hellið eggjablöndunni út í þurrefnablönduna og bara rétt veltið deiginu með sleif, alls ekki hræra mikið því deigið á að vera létt í sér. Hér bætið þið einni auka matskeið af mjólk ef ykkur finnst þurfa (hjá mér veltur þetta svolítið á rakastiginu í eldhúsinu hverju sinni, yfirleitt er aukaskeiðin óþarfi)
  4. Smyrjið silíkonmöffinsformin með kókosolíu áður en þið setjið deigið í formin (gerir 12 möffinsa)
  5. Bakið í blástursofni við 180°C í 20-23 mínútur (athugið að ofnar eru mismunandi, verið óhrædd að breyta þessu ef ykkur finnst ykkar ofn kalla á meiri hita eða lengri tíma)
  6. Látið möffinsin standa í formununum á kæligrind í 5 mínútur og í aðrar 5 mínútur þegar þið hafið tekið þau úr formunum

Pin It button on image hover