þriðjudagur, 1. febrúar 2011

pönnukökur



Pönnukökur á sunnudögum er eitthvað sem ætti að vera fært í lög. Það er bara eitthvað dásamlegt við það að borða pönnukökur með sultu og rjóma með sunnudagskaffinu. Kannski er það minningin um gamla tíma sem fylgir pönnukökugerð; mér finnst alltaf eins og ég sé stödd í eldhúsinu hjá mömmu eða ömmu. Yfirleitt ber ég pönnsurnar fram með lífrænni bláberjasultu, hindberjasultu og rifsberjahlaupi, og stundum nota börnin lífrænt eða heimagert súkkulaðihnetusmjör með rjómanum. En stundum setjum við nú bara hrásykur á þær og rúllum þeim upp.

PÖNNUKÖKUR

HRÁEFNI

  • 260 g fínt spelti (ca. 2 bollar)
  • má sleppa: klípa fínt sjávarsalt
  • 2 (hamingju)egg
  • 550-600 ml mjólk
  • 1-2 teskeiðar vanilludropar (úr heilsubúð) eða heimagerður vanillusykur
  • 2 matskeiðar kókosolía eða önnur jurtaolía

AÐFERÐ

  1. Blandið saman spelti og salti, ef notað, í stórri skál
  2. Myndið holu í speltið, brjótið eggin í holuna og rétt hrærið með pískara til að brjóta rauðurnar. Hellið þar næst mjólkinni rólega út í og hrærið allan tímann með pískara þar til deigið er kekklaust
  3. Hrærið þar næst vanilludropum og olíu saman við
  4. Ég nota ekki þessar klassísku íslensku pönnur þannig að ég byrja á því að bera þunnt lag af olíu með þurrku/pensli á pönnuna mína og læt hana hitna á meðalhita. Ég lækka svo hitann örlítið áður en ég byrja á sjálfum pönnukökunum
  5. Ef þið eruð nýgræðingar á sviði pönnukökugerðar hafið þá í huga að æfingin skapar meistarann og ljótar pönnukökur eru betri en margt annað. Aðalatriðið er að nota ausu til þess að koma deiginu hratt og vel á pönnuna. Notið mjúkan spaða til þess að snúa pönnukökunni við og færa hana á disk


Pin It button on image hover