sunnudagur, 5. júní 2011

hrökkbrauð / kex


Uppruna þessarar hrökkbrauðuppskriftar þekki ég ekki en fyrir tveimur árum fékk ég hana senda frá kunningjakonu og hún fór beint á uppskriftir-sem-ég-verð-að-gera listann (trúið mér, hann er vægast sagt orðinn langur). Svo þegar ein vinkona mín sendi mér sömu uppskrift um daginn eftir að hafa bakað hana (og síðar gefið mér að smakka) þá varð ég að baka hrökkbrauðið sjálf. Vinkona mín minnkaði olíumagnið töluvert og mér finnst það koma vel út. Ég minnkaði svo saltið líka því hér á heimilinu voru allir sammála um að það mætti vera minna. Uppskriftin sem ég birti hér að neðan er hálf uppskrift því mér finnst óþarfi að gera stærri skammt. Ég vil frekar baka hrökkbrauðið oftar enda er það fljótlegt. Aðferðin í uppskriftunum var sú sama nema að baksturstíminn var lengri í þeirri sem ég fékk nú síðast og mér finnst það koma betur út. Þetta kex er miklu hollara með osti og vínberjum heldur en hefðbundin (salt)kex og kjörið í nestisboxið.

HRÖKKBRAUÐ / KEX

HRÁEFNI

  • 1¾ dl spelti
  • ½ dl gróft haframjöl
  • ½ dl graskersfræ
  • ½ dl hörfræ
  • ½ dl sesamfræ
  • ½ dl sólblómafræ
  • ½-¾ teskeið fínt sjávarsalt
  • 1 dl vatn
  • 2 matskeiðar (30 ml) góð olía

AÐFERÐ

  1. Blandið öllu hráefninu saman í skál og hrærið með sleif eða sleikju þar til þið hafið linan massa
  2. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og setjið deigið á pappírinn, setjið því næst bökunarpappír yfir deigið og fletjið það út með kökukefli (þið getið svo lagað endana með fingrunum ef þið þurfið)
  3. Skerið deigið í þá stærð sem þið viljið hafa hrökkbrauðið (ég nota pizzaskera og svo rétt aðeins sting ég í hverja sneið með gaffli)
  4. Bakið í blástursofni við 200°C í 15-20 mínútur, fer eftir því hversu dökkt og stökkt þið viljið hafa hrökkbrauðið (ég baka það í 20 mínútur)
  5. Geymið hrökkbrauðið í loftþéttu boxi svo það verði ekki seigt

Pin It button on image hover