fimmtudagur, 3. janúar 2013

sætkartöflumús með pekanhnetum



Gleðilegt ár! Það stóð alltaf til að deila þessari uppskrift fyrir jól en ég hreinlega komst ekki í að gera hana að degi til og smella af mynd. Ég tók því bara myndina á gamlaárskvöld rétt áður en við settumst niður til að njóta kalkúnamáltíðar. Þetta meðlæti er í alveg sérstöku uppáhaldi hjá okkur og minningin ljúf frá kvöldinu sem við smökkuðum það fyrst. Það var í október 2009 sem við vorum að halda upp á kanadísku þakkargjörðarhátíðina í fyrsta sinn með góðum vinum í íslenska konsúlatinu í Winnpeg, Manitoba. Þvílík dásemdar veisla sem það var! (Ég kom með rósakálið til að setja á borðið og hafði gert pekankökur og bláberja- og súkkulaðiís à la CafeSigrun í eftirrétt). Ég fékk að sjálfsögðu uppskriftina og við berum ekki kalkún á borð án þessarar sætkartöflumúsar. Ég veit ekki hvaðan upprunalega uppskriftin kemur nákvæmlega en hún ber nafnið Sweet Potatoes Supreme á ensku og í henni er talað um 4 bolla af sætkartöflumús. Ég nota 1200 g af sætum kartöflum og hef aldrei mælt í bollum hversu mikið af mús ég fæ úr þeim þannig að ég hef ekki hugmynd um hvort ég sé að nota of mikið eða lítið. Sætkartöflumúsina sjálfa geri ég annars samkvæmt upprunalegu uppskriftinni en hef alveg breytt efsta laginu, sem var lítið annað en smjör og sykur sem átti að bræða saman. Ég vil að náttúrulega sæta bragðið af sætu kartöflunum fái að njóta sín og skil ekki áráttu fólks að drekkja þeim í sykri eða sykurpúðum eins og ég hef séð suma gera. Ég elda jú aldrei með smjöri þannig að ég henti því út og nota bara örlitla kókosolíu í staðinn, enda finnst mér óþarfi að nota meiri fitu í réttinn þar sem pekanhneturnar eru ríkar af fitu.

SÆTKARTÖFLUMÚS MEÐ PEKANHNETUM

HRÁEFNI


SÆTKARTÖFLUMÚS

  • 1200 g sætar kartöflur
  • 2 matskeiðar mjólk/sojamjólk eða rjómi
  • 1 teskeið sjávarsalt
  • ¼ teskeið paprika

EFSTA LAG

  • 2 matskeiðar agave eða hreint hlynsíróp
  • 1½-2 matskeiðar kókosolía
  • 130-150 g pekanhnetur

AÐFERÐ


SÆTKARTÖFLUMÚS

  1. Byrjið á að flysja sætu kartöflurnar fyrir suðu. Skerið þær svo í fjóra bita; fyrst í tvennt og svo hvorn helming langsum
  2. Sjóðið vatn í stórum potti (bara eins mikið og þarf til að hylja kartöflurnar). Bætið sætu kartöflunum út í og sjóðið þar til mjúkar (tekur ca. 20 mínútur)
  3. Hellið vatninu af. Notið kartöflustöppu til að stappa kartöflurnar í pottinum þannig að úr verði sætkartöflumús með silkimjúkri áferð. Bætið mjólkinni, saltinu og paprikunni út í og blandið saman við
  4. Færið sætkartöflumúsina yfir í eldfast mót (mitt er hringlaga, þvermál 23 cm) og notið sleikju til að jafna hana út

EFSTA LAG

  1. Setjið agave/hlynsíróp og kókosolíu í litla skál og notið skeið til að bara rétt blanda þessu saman (ef olían er í föstu formi setjið þá krukkuna í skál með heitu vatni fyrir notkun). Dreifið svo yfir sætkartöflumúsina
  2. Dreifið þar næst pekanhnetunum yfir
  3. Hitið í ofni í ca. 15-20 mínútur (ég stilli minn á 200°C) og passið bara upp á að brenna ekki hneturnar

Pin It button on image hover