þriðjudagur, 9. júlí 2013

sveppasalat



Á laugardaginn kom ég við í tímaritabúð og var að blaða í hinum og þessum tímaritum. Ég fletti í gegnum franska matarblaðið Saveurs og sá mynd af sveppasalati sem var aðeins of girnilegt. Ég vissi að það léti mig ekki friði fyrr en ég smakkaði það þannig að það var ákveðið að bera salatið fram sem meðlæti sama kvöld. Ég skildi ekki alveg öll orðin í aðferðarlýsingunni en ég lagði innihaldið á minnið og þetta er mín útgáfa af salatinu (skammturinn í blaðinu var mun stærri því þeir notuðu 1 kíló af sveppum). Að útbúa salatið gæti ekki verið einfaldara en hafið í huga að það þarf að marínera sveppina í tvær klukkustundir. Ég bar það fram með grilluðum kjúklingaleggjum og kúskús og eins og eiginmaðurinn orðaði það þá var það óvenjulega gott í einfaldleika sínum. Ég er alveg sammála.

SVEPPASALAT

300 g sveppir
1½ matskeið jómfrúarólífuolía
safi úr ca. ⅓ af sítrónu
sjávarsalt
væn lúka af ferskum kóríander


Sneiðið sveppina (eða sparið tíma og kaupið þá sneidda) og setjið þá í stóra skál ásamt ólífuolíu, sítrónusafa og salti. Setjið plastfilmu yfir skálina og marínerið sveppina í tvær klukkustundir. Ef möguleiki, hrærið þá létt í skálinni af og til.

Saxið ferskan kóríander og blandið saman við áður en þið berið salatið fram.

Pin It button on image hover