miðvikudagur, 23. nóvember 2016

Nýtt! Pizzasnúðar, baunaréttur og „hrá“ kaka



Ég fæ seint afreksverðlaun fyrir að deila uppskriftum það sem af er þessu ári, en síðan ég uppfærði þessa síðu síðast hef ég bætt þremur uppskriftum á Lestur & Latte. Í gær voru það pizzasnúðar (gerlausir), í október baunapottréttur með karrí og kókosmjólk, sem er ein af mínum uppáhalds haust- og vetaruppskriftum, og í sumar dásamleg óbökuð kaka úr smiðju Ani Phyo sem krakkarnir mínir elska, mjúk valhnetusúkkulaðikaka með hindberjum.



Næsti sunnudagur er hinn fyrsti í aðventu og það sem ég hlakka til. Við erum alltaf með aðventubrönsj alla sunnudaga fram að jólum og fyrir þann fyrsta er heimilið hóflega skreytt: smá jólaskraut, hýasintur og fullt af kertum (jólatréð fer upp fyrstu eða aðra helgina í desember). Núna á sunnudaginn ber ég fram, meðal annars, sænskt fléttubrauð með kardamomu, en það er uppskrift sem ég setti saman í fyrra við miklar vinsældir. Hér eru jólalegar uppskriftir sem ég hef deilt á Lestur & Latte:

indverskt te (chai latte)
kryddbrauð
marengstoppar (og súkkulaðisósa)
möndlugrautur (risalamande)
quinoa-búðingur með grískri jógúrt, berjum og ávöxtum
rabarbaramulningur með berjum
sænskt fléttubrauð með kardamomu

Og hér þær jólalegu sem eru enn hér á gamla blogginu:

rósakál m/kastaníuhnetum, beikoni og steinselju
súkkulaðibitakökur með möndlum og haframjöli
sætkartöflumús með pekanhnetum

Slökkvið nú á þessum blessuðu farsímum og njótið aðventunnar með bókum, spilum og kósíheitum!

mánudagur, 25. apríl 2016

ný uppskrift - linsubaunasúpa



Það var nú kominn tími á mig að deila uppskrift á Lestur & Latte og að þessu sinni varð linsubaunasúpa fyrir valinu. Ég vildi deila henni núna frekar en að láta hana bíða fram á haust.

miðvikudagur, 20. janúar 2016

ný uppskrift - tómatsúpa með grænmeti og karrí



Nýjasta uppskriftin á Lestur & Latte er tómatsúpa með grænmeti og karrí sem er dásamleg í kroppinn á köldum vetrardögum. Á okkar bæ gengur hún einmitt undir heitinu kalt-úti súpa. Þessi uppskrift hefur verið lengi á CafeSigrun-vefsíðunni undir heitinu Tómatsúpa Höddu og mörg ár síðan ég smakkaði hana fyrst. Ég gerði bara örlitlar breytingar.

Pin It button on image hover